• Rúnir á Hönnunarmars: útgáfufögnuður!

    Við bjóðum ykkur að fagna með okkur útgáfu bókarinnar Runes: The Icelandic Book of FUÞARK. Útgáfufögnuðurinn fer fram í Safnahúsinu í formi eiginlegrar sýningaropnunar í tengslum við Hönnunarmars. Efni bókarinnar verður gert skil með líflegri innsetningu í anddyri hússins sem stendur yfir alla hátíðina. Gestum og gangandi gefst þar færi á að taka þátt í sýningunni með því að fikra sig áfram í rúnaskrift og rúnalestri. 

    Runes: The Icelandic Book of FUÞARK er gefin út af The Icelandic Magic Company, sem er dótturforlag Lesstofunnar. Bókin er samantekt á þremur kerfum rúnaleturs: eldra fuþark, yngra fuþark og íslenska fuþark. Saga og merking rúnanna er rakin í bókinni, en formgerð þeirra er einnig sett í nútímalegt samhengi og hver rún teiknuð upp í samræmdu letri sem er í takt við nútímaleturhönnun. Algengasta form hverrar rúnar er sett í forgrunn en önnur algeng form eru einnig sýnd, ásamt stafagildi rúnanna í latneska stafrófinu. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem íslenska rúnastafrófið er sett fram heildstætt, auk þess sem þar er að finna texta sem ekki hafa komið út á prenti fyrr, s.s. rúnaljóð frá ólíkum tímabilum fyrri alda.

    Á síðustu áratugum hafa rúnir einna helst verið notaðar á vörur sem eiga að höfða til ferðamanna hérlendis. Rúnirnar eru þá jafnan tengdar víkingum, göldrum eða tiltekinni tónlistarstefnu. Það er ekki síst af þessum sökum sem rúnir hafa ekki átt upp á pallborðið hjá stórum hluta þjóðarinnar á síðari hluta 20. aldar og nú í upphafi þeirrar 21. og þykja jafnvel hallærislegar. Heldur minna hefur farið fyrir þeirri staðreynd að almenningur notaði rúnaletur sér til gagns, allt fram undir lok 19. aldar, en um það leyti minnkaði rúnalæsi mikið og heyrir slíkt ekki til almennrar kunnáttu í dag. Með þetta að leiðarljósi lögðu aðstandendur útgáfuverkefnisins upp með að gefa út rit sem gerir grein fyrir helstu stafrófum rúnaleturs sem hafa verið í notkun hérlendis og víðar og leituðust við að setja fram á nútímalegan og kerfisbundinn hátt. Þannig gæti ritið þjónað jafnt sem heimild um rúnaletur sem stendur föstum fótum í samtímanum og uppflettirit fyrir þá sem hafa áhuga á að notfæra sér rúnir í skrift, lestri og sköpun.

    Þetta er í fyrsta sinn sem þessi þrjú rúnakerfi eru teiknuð upp og gefin út með nútímalegu letri, í anda svissneskrar leturhefðar. Þannig er rúnastafrófið hafið upp á sama plan og önnur rótgróin og betur þekkt stafróf í menningarsögunni, svo sem kyrrillíska stafrófið, gríska stafrófið, og það latneska. Með slíkri framsetningu öðlast rúnastafrófið sess í samtímanum, sem er óháður sjónrænum tengingum í túrisma og fornaldarfræði. Teresa Dröfn Freysdóttir safnaði heimildum um rúnakerfin sem eru til umfjöllunar og skrifaði texta bókarinnar. Siggi Odds hannaði rúnakerfin og allt innvols bókarinnar, braut um hana og bjó til prentunar.

  • ← Nýrri frétt Eldri frétt →