• „Galdraskræðan er fjögurra ef ekki fimm stjörnu bók“

  Í dag birtist á Pressunni ritdómur Bjarna Harðarsonar um Galdraskræðu. Og eins og má lesa hér að neðan er Bjarni ánægður með útgáfuna.

  Utangarðsskáld endurútgefið

  Hina nýju útgáfu Galdraskræðunnar prýðir galdrastafur sem gagnast þeim sem vilja geta lesið í myrkri. Á myndinni hér að ofan er aftur á móti galdrastafurinn Kuðungur sem er til margs gagnlegur og kann meðal annars að „forða píku kallmannafari.“

  Bjarni Harðarson, rithöfundur, bóksali og fyrrverandi alþingismaður skrifar ritdóm:

  Galdraskræða

  Höfundur: Jochum Eggertsson

  Formáli eftir Þórarinn Eldjárn

  Hönnun og umbrot: Arnar Fells Gunnarsson

  Önnur útgáfa, aukin.

  Útgefandi Lesstofan, Reykjavík 2013

  Harðspjalda, demybrot, 190 síður

  Það er ánægjulegt að sjá bók eftir Jochum Eggertsson frá Skógum í Þorskafirði endurútgefna. Jochum sem skrifaði undir skáldheitinu Skuggi var alla ævi utangarðsmaður í íslenskri menningu og í lifanda lífi hvorki talinn með rithöfundum né fræðimönnum. Sjálfur var Skuggi óhræddur við að ræða stöðu sína og segir árið 1950 í formála að bókinni Tala dýrsins:

  „Höf. þessarar ritgerðar hefur gefið út nokkuð á þriðja tug ritlinga og bóka, með ýmiskonar efni, en með hverju riti hefur lesendum hans farið fækkandi. Síðasta bók hans: Brísingamen Freyju, útg. 1948, sem bæði er fróðleg bók og skemmtileg, og verðinu mjög stillt í hóf, - hefur aðeins selst í 5 eintökum á öllu landinu utan Reykjavíkur. Þetta mun vera lágsölumet á landi hér.“

  Og ástæðuna telur skáldið vera að „...flokkarnir eiga rithöfundana og skáldin með húð og hári; ala þá eins og guðsgeldinga og slátra þeim síðan og selja af þeim afurðirnar á eigin reikning.“

  En því fer fjarri að þessar nöturlegu viðtökur samfélagsins hafi náð að beygja orðhákinn að vestan, hann ráðleggur lesendum sínum að halda vel utanum rit sín sem aðeins eru gefin út í 150 eintökum og „getur komist í hátt verð þegar stundir líða.“

  Og vitaskuld hafði Skuggi rétt fyrir sér. Um áratugi hafa bækur hans gengið milli safnara á mjög háu verði og skrif hans hafa haft mikil áhrif í heimi skálda og rithöfunda. Þar ber hann höfuð og herðar yfir samtímamenn sína og það er helst að Jóhannes Birkiland sé honum jafnfætis. Báðir þessir seldu „litla bæklinga og salan hún var treg“ eins og skáldið Megas yrkir um Birkiland en hafa svo báðir hlotið uppreisn eftir dauðann. Engum blandast þó hugur að þeir eiga það sameiginlegt, Birkiland og Skuggi að vera á mörkum þess að teljast andlega heilbrigðir. Skuggi fer oft og einatt með himinskautum í skrifum sínum.

  En það leynist í galskap Skugga snilld, jafnt í meðförum á íslensku máli sem og rökræðu. Skopskyni hans er viðbrugðið og óvíst að nokkurntíma hafi verið skrifuð fyndnari saga á íslenska tungu en meistaraverkið Gaddavírsátið og átjándi sjúkdómurinn sem var síðasta verk hans á prenti og kom út 1953. Mynd; sjálfsmynd skáldsins.

  En svo vikið sé að Galdraskræðu Skugga sem nú er endurútgefin þá kom hún út árið 1940 og er merkust allra bóka höfundarins. Hér eru dregin saman forn fræði um galdra, galdrastafi og rúnir. Jafnframt er lesendum leiðbeint eftir því sem föng eru á í meðferð þessara galdra. Um sumastafi er þó tekið fram að þeir séu ekki nema fyrir fulllærða galdramenn en aðrir eru einfaldir í notkun. Til þess að fá stúlku þarf ekki annað en að rista tiltekinn staf á svínsbelg „...úr blóði þínu úr vinstri geirvörtunni og láta síðan stúlkuna sofa á honum næturlangt; og þarftu þá ekki að biðja hennar eftir það framar.“ Enn auðveldara er að fá stúlku til að þegja yfir leyndarmáli en þá er stafur ristur á ost eða brauð og „...gef henni að éta.“

  Stafagerðin getur þó verið flókin og þannig er með staf þann sem Kuðungur heitir. Teikning hans er tæpast á allra færi en þar er líka til nokkurs að vinna því með honum má vinna marga galdra, lesa í veður og forða ósiðsemi eða með orðum Skugga:

  „Stafur til að formerkja sjávarhljóð og veður, forða píku kallmannafari og lauslætismönnum óhóflegri kvensemi, lækna sjósótt og forða kuðungariðu. ...“

  Í eftirmála fjallar Jochum Eggertsson um eðli galdra og mátt hugsunarinnar sem hann telur hið æðsta og fullkomnasta mannlegs og guðlegs anda. Illar hugsanir geti einar og sér komið illu til leiðar og um leið tortímt þeim sem leyft hefur haturs meinsemdinni að grafa um sig. Er margt í þessum athugunum skáldsins íhugunarvert og skrifað af speki og næmi fyrir mannlegum tilfinningum.

  En þó að hér sé sagt að Skuggi hafi með riti sínu dregið saman forn fræði verður að taka heimild hans um galdra og galdratrú fyrri tíða rmeð nokkrum fyrirvara. Höfundurinn er sjálfur of mikill þátttakandi og gerandi í sköpun sinni til að Galdraskræðan geti talist fræðileg í venjulegum skilningi. Í lok ritsins tilgreinir Skuggi tugi handrita sem hann hefur haft að heimildum og liggja í opinberum söfnum. Það er verk þjóðfræðinga og sagnfræðinga að bera það sem þar er að finna saman við verk Skugga og vonandi kemur að því að fræðileg úttekt á galdraskrifum þessa einstæða höfundar komi fyrir almennings sjónir.

  Bókaútgáfan Lesstofan hefur unnið þarft verk með þeirri útgáfu sem nú birist okkur. Hér hafa margir lagt hönd á plóginn. Þegar Lesstofufólk var að hugsa sér til hreyfings í þessu verkefni vorið 2012 fréttist af því að unnið væri með sama verk á námskeiði hjá Guðmundi Oddi Magnússyni prófessor við Listaháskóla Íslands. Þar réðust nemendur í að teikna upp myndmál bókarinnar sem var prentuð af miklum vanefnum 1940 og myndverk fremur smá. Afraksturs þessa verks myndlistarnema og falleg bókarhönnun Arnars Fells Gunnarssonar sér nú stað í faglegri og glæsilegri útgáfu. Formála að ritinu skrifar Þórarinn Eldjárn rithöfundur þar sem hann fer nærfærnum höndum um skáldbróður og gerir lauslega grein fyrir lífskoðunum hans.

  Endurútgáfa Galdraskræðu Skugga er falleg bók og eiguleg, full af fróðleik sem gott getur verið að grípa til, hvort heldur að einhver heimilismanna þurfi skyndilega að ná ástum stúlku eða þá að fletta þurfi uppstafrófi rúnaleturs en margar gerðir þess eru í bókinni. Galdraskræðan er fjögurra ef ekki fimm stjörnu bók.

  Bjarni Harðarson

 • ← Nýrri frétt Eldri frétt →