• Vögguvísa í Hörpu | Myndband    Á Menningarnótt síðastliðinn laugardag var Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO með dagskrá í Hörpu þar sem ýmsir viðburðir voru kynntir. Þeirra á meðal var lestrarhátíðin í október þar sem Vögguvísa eftir Elías Mar verður í brennidepli. Hjálmar Sveinsson hóf dagskránna á spjalli um bókina þar sem sagan var sett í samhengi við önnur verk Elíasar og skáldsögur eftirstríðsáranna. Tryggvi Gunnarsson las einnig valda kafla úr bókinni, en hann les einmitt inn á hljóðbókarútgáfu Lesstofunnar á sögunni. Bergur Ebbi var svo með uppistand þar sem hann gantaðist og grínaðist með þau slangurorð sem Elías safnaði saman þegar hann hóf að skrifa söguna. Bergur Ebbi sló í gegn og salurinn - sem var svo gott sem fullur - bókstaflega grét af hlátri. Rúsínan í pylsuendanum var svo frumflutningur á Vögguvísu sem Lesstofan mun gefa út á næstu vikum. Lagið er endurgerð á slagaranum Chi-baba, Chi-baba (My Bambino go to Sleep) sem Perry Como gerði frægt árið 1947. Lagið er mjög áberandi í Vögguvísu Elíasar; til að mynda eru bæði titill bókarinnar og viðurnefni aðalsöguhetjunnar fengin úr texta lagsins. Þetta var lag sem allir „blístra að morgni dags og dansa eftir á kvöldin“ eins og segir á einum stað í bókinni og er Lesstofan sannfærð um að sú verði aftur raunin 65 árum síðar, í október árið 2012.

    Hér að neðan má sjá myndband af frumflutningnum. Fríða Dís Guðmundsdóttir syngur lagið, Baldur Tryggvason spilar á gítar, Smári  „klári“ Guðmundsson plokkar bassann og Svavar Steinarr Guðmundsson og Þorsteinn Surmeli syngja bakraddir. Jóhann Axel Andersen sá um íslenskan texta.

  • ← Nýrri frétt Eldri frétt →