• 14:2. Um athugasemdir við bók um Jón lærða

  Hér birtist svar Viðars Hreinssonar við gagnrýni Einars Gunnars Péturssonar á bók hans, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Greinin birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu 23. febrúar 2017.

  – – –

  Í Morgunblaðinu 17. febrúar sl. birtist sérkennileg atlaga að bók minni, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar sem út kom á síðasta ári. Höfundurinn, Einar G. Pétursson (EGP), titlar sig rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ætla má að svo virðulegur titill kunni að vekja lotningu hjá grandalausum lesendum. Þeir gætu jafnvel haldið að rannsóknarprófessorinn talaði að einhverju leyti á vegum þeirrar góðu stofnunar sem vissulega er flaggskip íslenskra fræða. Af þessum sökum, en þó allra helst vegna þess að þarna er ekki um að ræða heildstæðan ritdóm, heldur árás á fræðimennsku mína, neyðist ég til að bregðast við.

   

  I. Forsaga

  EGP byrjar umfjöllun sína á ríflega 20 ára gamalli grein minni um Jón lærða og rifjar upp að hann hafi léð okkur Sverri Tómassyni (mér þykir leitt að hann hafi verið dreginn inn í þessi lágkúrulegu skrif) uppskrift sína á Edduriti Jóns lærða vegna þess að við treystum okkur „ekki til að rannsaka pappírshandrit Snorra-Eddu frá 17. öld.“ Með þessu er tónninn sleginn, dylgjum um getuleysi þess sem spjótum er beint að. EGP veit auðvitað mætavel að það er alvanalegt að fræðimenn láni hver öðrum uppskriftir og annað efni, enda ástæðulaust að vinna sama verkið margsinnis. Við Sverrir fengum uppskriftina léða árið 1992 vegna rannsóknarverkefnis um viðtökur Snorra Eddu og hún kom að góðu gagni. Á þessum tíma átti ég ágæt samskipti við EGP og hafði frumkvæði að því að honum var boðið til Winnipeg síðsumars 1993 til að skoða og skrá þar íslensk handrit og halda fyrirlestur um handritafræði.

  Ég hélt erindi um rannsókn mína á Edduriti Jóns lærða á málþingi í Osló sumarið 1992 og nokkru síðar fór ég að skrifa grein upp úr fyrirlestrinum. Þegar ég sýndi EGP fyrsta uppkastið brást hann sérkennilega við og sagði þetta allt saman bull og vitleysu án þess að rökstyðja það frekar. Mig fór fljótlega að gruna að EGP teldi Jón lærða einfaldlega vera á sínu yfirráðasvæði, aðrir ættu ekkert með að fjalla um Jón nema með hans leyfi og íhlutunarrétti. Ég ber enga virðingu fyrir þess háttar fræðilegum landamerkjakröfum og lauk við greinina undir traustri ritstjórn Sverris Tómassonar. Bókin með greininni, Guðamjöður og arnarleir, kom út 1996 og þar er EGP þakkað skilmerkilega fyrir lánið. Síðan hefur EGP haft horn í minni síðu og oftar en einu sinni hreytt ónotum í þessa gömlu grein á prenti og þannig gert sitt til að forða henni frá gleymsku. Þegar ég fékk árið 2005 þriggja mánaða laun til að hefja ritun ævisögu Jóns lærða hafði ég aðstöðu á Árnastofnun meðan ég var að ljúka öðru verki. Þá kallaði EGP mig inn á skrifstofu sína og var mikið niðri fyrir þegar hann tjáði mér að ýmis önnur rannsóknarefni væru brýnni. Þetta ár lagði ég ýmis drög að ævisöguritun en tók svo til árið 2011 við þá bók sem nú liggur fyrir og er ýmislegt meira en ævisaga.

  EGP tiltekur eitt efnisatriði úr þessari gömlu grein, þ.e. að Jón lærði hafi nánast verið utangarðs félagslega og fræðilega og virðist einhvernveginn telja að niðurstaða Gunnars Karlssonar um að 40% skólasveina hafi verið bændasynir hreki þá skoðun mína. Eftir að hafa legið yfir ævi Jóns og verkum árum saman er ég enn að mestu sama sinnis. Jón var stundum innangarðs og stundum utan, ofsóttur á löngu tímabili og hreinlega dæmdur í útlegð. Lögformlega séð var hann útlagi síðustu 27 ár ævi sinnar þó að hann fengi að vera óáreittur í skjóli góðra manna á Austurlandi drjúgan hluta þess tíma og Brynjólfur biskup hafi kunnað að meta þekkingu hans og hvatt hann til skrifta. Ekki er að sjá að lærdómsmenn á borð við Þorlák biskup Skúlason og Ole Worm hafi borið mikla virðingu fyrir Jóni því hans er hvergi getið í fræðum þeirra þó að flest bendi til þess að hann hafi frætt þá beint og óbeint um rúnir. Og slæmt orðspor Jóns kom í veg fyrir að séra Magnús í Laufási leitaði til hans um um túlkun rúna árið 1630. Því mætti kannski segja að Jón hafi löngum vegið salt á garðveggnum utan um samfélög manna og fræða. Það er kaldhæðnislegt að fræðimaður á borð við EGP, sem stundar sín störf „innan við múrvegginn“, skuli leggja hald á einstæðan fræðimann sem engir múrar héldu.

  Þetta er forsagan að atlögu EGP. Augljóst er að hann telur mig og bók mína troða sér um tær og leitar nú hefnda í Morgunblaðinu. Það sést best á því að hann tíundar einungis það sem hann telur vera villur og vammir út frá mjög þröngu sjónarhorni en gerir enga tilraun til að meta verkið í heild og segja á því kost og löst. Áður en ég svara aðfinnslum vil ég því gera stutta grein fyrir aðferðum mínum og markmiðum.

   

  II. Um verkið

  Ritið Jón lærði og náttúrur náttúrunnar er fyrst og fremst fjölþætt. Því er ætlað að draga upp breiða mynd af umbrotaskeiði. Ævi Jóns lærða er rakin eins ítarlega og kostur er og í gegnum hana birtast smátt og smátt einkenni samtíma hans, menningarleg sérkenni Íslands framan af en þegar á líður æ víðtækara samhengi á heimsvísu. Verkinu mætti líkja við ótal læki og þverár sem um síðir safnast í stórt fljót sem rennur inn í samtíma okkar, segir frá fortíð sem hefur mótað okkur um margt.

  Ritið er í senn framlag til bókmennta- og menningarfræða, sagnfræði, hugmynda- og vísindasögu, heimspekisögu, náttúrusögu og samfélagsgreiningar. Eftir sem áður ber ekki mikið á eiginlegri fræðilegri rökræðu í textanum enda reyndi ég töluvert að nýta frásagnarhátt sagnaþátta, þeirrar merkilegu hefðar, til að byggja upp alþýðlega frásögn og ná um leið utan um sem mesta fjölbreytni þvingunarlaust. Hins vegar er lagt kapp á að vísa í allar þær heimildir sem stuðst hefur verið við, hvort sem það eru alþjóðlegar teoríur eða íslensk fræði. Í vísindum og fræðum eru að verða pólskipti, menn reyna í vaxandi mæli með fjölþættum aðferðum að átta sig á flækjum og fjölbreytni frekar en smætta þekkingu í einföld og vélgeng lögmál.

  Í stað þess að safna og raða saman einangruðum textum og textabrotum, vitnisburðum og stafkrókum í anda úreltrar textafræði, þarf að draga saman sem flest gögn og vísbendingar, túlka og vinna úr þeim með skynsemina að vopni til að skapa víðtækari heildarsýn og ná tökum á því margslungna samhengi, flæði og verðandi sem lífið er að fornu og nýju. 

   

  III. Sextán aðfinnslur

  Þá er komið að því að ráða í þau atriði sem EGP gagnrýnir, oft með heldur óljósum hætti, og svara fyrir þau og skýra eftir föngum.

  1. Fundið er að umfjöllun um skriftamál Solveigar Björnsdóttur. Hún er undir lok kafla þar sem drepið er á litríka ættarsögu Skarðverja og endað á átakanlegum ástum Solveigar. Frásögnin er í kafla um dvöl Jóns lærða á Skarði og hefur þrefaldan tilgang: að gefa hugmynd um hvaða sögur kunna að hafa verið á kreiki á Skarði þegar Jón var þar, að sýna dæmi um kvennakúgun og bælingu ástalífs og loks undirbúa stutta frásögn af þeim frábæra skrifara Jóni Þorlákssyni. Þá þjónaði tilvitnun í skriftamálin einnig þeim tilgangi að sýna skilning þess tíma á hugtakinu náttúra. Í aukasetningu segir að varla sé mikið að marka syndajátningar af þessu tagi en ég taldi ekki rúm til að fara frekar út í þá sálma. Ég viðurkenni fúslega að ég hefði átt að vitna í ágæta og stórfróðlega grein Helgu Kress um þetta efni, sem birtist fyrst í Nýrri sögu árið 1999, þó ekki væri nema til að beina þeim sem vildu forvitnast frekar um efnið í þá heimild. „Ekki er mjög brýn þörf á að halda vafasömum sögusögnum á lofti“ segir EGP, en ég styðst frekar við mína dómgreind en hans í þeim efnum.

  2. EGP nefnir mynd af Jónsbókarhandriti á bls. 162 sem ég tel að Jón hafi skrifað fyrir Skarðverja og segir: „Skreytingin í handritinu er ólík skreytingum í handritum, sem Jóni hafa til þessa verið eignuð.“ Ég veit ekki hvort EGP telur sig með þessu hrekja að Jón hafi skrifað handritið. Rök mín fyrir því eru í meginmálinu á næstu síðum, 163-164 þar sem ég nefni meðal annars að torvelt sé að sjá hvort Jón hafi dregið upphafsstafina en þeir séu sennilega teknir upp eftir eldri bók. Í sérstakri greinargerð fyrir þeim handritum sem ég eigna Jóni á bls. 701-707 nefni ég að rökstuðningur sé mistraustur og þörf á ítarlegri rannsóknum á þeim handritum sem ég og aðrir eigna Jóni. Frekari rök fyrir því að Jón hafi skrifað þetta tiltekna handrit eru á bls. 705. Athugasemd EGP er því marklaus og villandi.

  3. EGP telur ámælisvert að ég hafi ekki nefnt þýskar grasabækur sem Hjörleifur Guttormsson tilgreinir í bókinni Í spor Jón lærða. Ég nefni aðrar eldri og drep lauslega á upphafið á prentun þýskra grasa- og náttúrufræðibóka. Því fer fjarri að hægt sé að sjá nákvæmlega hvaða bækur Jón ræðir um og því má einu gilda hvaða bækur eru nefndar til sögu. Ég hafði mikið gagn af mörgum athugunum Hjörleifs í umræddri bók en þetta atriði getur varla talist til þeirra mikilvægustu.

  4. „Ekki verður séð hvaða heimildir VH hafði er hann fullyrti að Jón lærði hafi komist í skrifaða grasabók Jóns biskups Halldórssonar“ segir EGP. Í lok efnisgreinar um það atriði vísa ég í Tíðfordríf Jóns, 7v-8r. Þar er frekar óljós og ruglingsleg klausa um grasabækur, skrifaðar og prentaðar. Sumar þeirra sá hann á Skarði þó að ekki sé það óyggjandi að hann hafi séð þá skrifuðu þar. Það er þó aukaatriði, aðalatriðið er að draga skynsamlegar ályktanir um bóklega iðju Jóns, sumar af líkum, aðrar af varðveittum handritum, enn aðrar af öðrum heimildum.

  5. Þó að ekki sé til „traust“ heimild um að Jón lærði hafi komið í Hóla 1623 að mati EGP, eru líkurnar yfirgnæfandi. Það er rangt hjá EGP að það sé „greinilega tómur hugarburður.“ Finnur biskup Jónsson segir beinlínis að Jón hafi farið í Hóla og komið syni sínum þangað í skóla, sem bendir til að hann hafi komið þar nokkru fyrr en 1623. Fræðistörf hans fyrir Hólamenn benda til þess að samskiptin hafi verið býsna náin. Jón talar kunnuglega um grös á Hólum við sundlaugina ofan við skólann og EGP hefur sjálfur bent á rúnastafróf Jóns á saurblaði eintaks af Crymogæu sem Arngrímur lærði gaf Guðbrandi biskupi. Um þetta leyti sendi Þorlákur Skúlason Ole Worm rúnastafróf sem virðist byggt á stafrófi Jóns. Loks má nefna lækningu þá sem Jón tíundar í lækningabók og hann virðist hafa prófað á Guðbrandi. Þessi atriði samanlögð benda til þess að Jón hafi komið í Hóla einmitt um þetta leyti.

  6. EGP segir að ótrúlega víða séu undarlegar fullyrðingar og kveðst taka örfá dæmi af mörgum. Þetta er gamalt bragð, að segja að tekin dæmi séu aðeins lítill hluti af heild. Ég set oft fram tilgátur en tek um leið fram að þær þurfi að skoða betur. Hér endurtekur EGP efasemdir um Jónsbókarhandritið en þeim hef ég þegar svarað í lið 2.

  7. Þá nefnir EGP galdrakver sem ég get mér til að Jón hafi skrifað á Rifi. Ég fullyrði ekkert um það en röksemdir með og á móti eru í handritagreinargerðinni á bls. 705. Meginástæða þess að ég fjalla um þetta litla kver er sú að það gefur hugmynd um þá iðju sem Jón tók að líkindum þátt í á Rifi um þessar mundir. Röksemd EGP um að skriftin sé viðvaningsleg heldur ekki vatni vegna þess að kverið er svo lítið að erfitt er að vanda skriftina, kannski við erfiðar aðstæður, á skinnpjötlu þar sem hver síða er lítið stærri en eldspýtustokkur. Myndin á bls. 335 er um 1 sentimetra minni en raunstærð.

  8. Ég skoðaði hvalamyndir sem EGP drepur á mjög vandlega eins og sjá má á bls. 442-446 og tel óyggjandi að Jón hafi teiknað þær. Líklegast er að hann hafi gert það í Kaupmannahöfn (sjá bls. 706). Aftur fjalla ég á bls. 599-602 nokkuð ítarlega um myndirnar og spurninguna hvort þetta séu þær myndir sem Brynjólfur biskup sendi Otte Krag kansellíritara árið 1647. Úr því verður ekki skorið með óyggjandi hætti. Umfjöllun EGP er ruglingsleg en markmiðið virðist vera að sá efasemdum um vinnubrögð mín varðandi myndirnar. Því fer fjarri eins og menn geta séð í bókinni en vel má vera að honum gremjist að ég skuli hafa fundið svo merkilegt verk Jóns lærða.

  9. EGP viðurkennir að það sé með fyrirvörum þegar ég eigna Jóni merkilegt Vestfjarðakort á skinni. Hann telur að Jón hefði þurft að teikna kortið áður en hann kom að Skarði því „óhugsandi er að hann hafi getað hugsað sér Gilsfjörð svo þröngan.“ Hér reynir hann að sjá í hug Jóni en tekst það óhönduglega. Það er fráleitt að álykta svona um það hvernig 17. aldar maður teiknaði upp kort fríhendis af landsvæði, kannski mörgum árum eftir að hann var á svæðinu, löngu áður en útlínur landsins tóku að festast í vitund manna á sama hátt og hjá nútímamönnum.

  10. EGP finnur að því að ég giski á að Jón hafi farið með Brynjólfi biskupi í Skálholt og skrifað þar gullfallegt Edduhandrit. Ég undirstrika að þetta er ágiskun og ræði rök með og á móti. Þetta er ekki sambærilegt við umræðuna um ferð Jóns í Hóla 1623 því hér eru vísbendingar veikari. Hin sterkasta um að Jón hafi yfirleitt komið í Skálholt er sú að hann ræðir kunnuglega um grös sem þar uxu. Orð EGP um að í bók minni sé „mikil tilhneiging til að eigna Jóni lærða margt með veikum rökum“ eru villandi því ég ræði jafnan aðstæður, rök og mótrök, meðal annars til að draga upp víðtækt samhengi verka hans. Og þá er vert að hafa í huga að ugglaust hafa ýmis verk Jóns glatast. Það elsta sem varðveitt er eftir hann með fullri vissu eru kvæðin gegn Snjáfjalladraugnum sem varla eru frumraun hans í kveðskap. Orð EGP litlu síðar um slaka heimildarýni mína eru jafn marklaus, ég geri mér einmitt far um að ræða vægi heimildanna og forsendur ályktana minna eru yfirleitt ljósar.

  11. Um ritið Gensvar eftir Ara í Ögri bætir EGP við ágætum fróðleiksmola. Það getur þó naumast talist vanræksla af minni hálfu að hafa ekki nefnt þessi tvö handrit sem geyma ritið heilt og að hluta. Þegar ég segi að ekki sé vitað hve víðreist ritið gerði í afskriftum á ég við að ekkert sé vitað um hve oft það hafi verið skrifað upp á sínum tíma né hve víða það hafi farið. Stundum hefur verið giskað á að um 10% handrita sem skrifuð voru hafi varðveist og því er augljóslega ómögulegt að komast að því með vissu hvað til var af tilteknum ritum á ákveðnu tímabili.

  12. EGP segir að í bók minni sé sagt „að ritið Um ættir og slekti sé aðeins til í einu handriti“ en það er rangt. Tvær setningar má með illvilja túlka svo, en þar fyrir utan skiptir þetta engu máli.

  13. Það er í raun óþarfi að hafa orð á næsta atriði því EGP nefnir réttilega að ég taki ekki trúanlegar sögur af því að Guðmundur Einarsson hafi bannfært Jón lærða. Hann finnur þó að því að ég skuli nefna að Sighvatur Borgfirðingur geti þess. Tilgangurinn var einfaldlega að sýna hve vel þessi saga komst á flug. Svo augljóst er að frásögn Sighvats er ekki tekin bókstaflega, að erfitt er að verjast þeirri hugsun að þarna hafi skort nokkuð á fræðilega yfirvegun hjá EGP þegar hann hamraði á lyklaborðið.

  14. Þá kemur að synd sem ég játa strax og möglunarlaust án þess að kanna málið nánar. Að ég hafi sett sérhljóðsmerki yfir u á einum stað þar sem tilgreindur er stafréttur titill texta í handriti.

  15. Fundið er að því að ég hafi ekki nefnt að Grænlands annál Jóns lærða séu elsta heimild um að Edda sé kennd Sæmundi fróða. Engin sérstök ástæða er til að nefna þetta því rit mitt er fyrst og fremst um Jón lærða og náttúrusýn 17. aldar en ekki viðtökusaga fornrita. Það er ekki á valdi EGP að ákveða hvað skuli tekið með í mitt verk.

  16. Sama á við um Heimskringluútgáfu Ole Worm. Bók mín er ekki útgáfusaga fornrita.

   

  IV. Niðurstöður

  Nú hafa verið taldar 16 aðfinnslur EGP. Ég viðurkenni að ég hefði átt að nefna ritgerð Helgu Kress í sambandi við skriftamál Solveigar Björnsdóttur og líklega hefur EGP rétt fyrir sér varðandi sérhljóðsmerkið. Þetta endar því 14:2.

  Í mörgum athugasemdum sínum lætur EGP að því liggja að um sé að ræða einfaldar staðreyndavillur en lítur fram hjá því að atriðin eru oft ítarlega rædd og útskýrð auk þess sem ég nefni í eftirmála (bls. 660) að þörf sé á miklu meiri rannsóknum og ég gæti nefnt hátt í tug áhugaverðra rannsóknarverkefna um Jón lærða. Í lokin viðrar hann efasemdir um að bók mín standist fræðilegar kröfur svo vel að réttlætanlegt sé að tilnefna hana til verðlauna. En honum nægja ekki tilhæfulausar aðfinnslur og aðdróttanir um fræðileg vinnubrögð mín, heldur reynir lævíslega að safna liði gegn mér, með því að kalla til fræðimenn sem ég hafi annað hvort gengið í berhögg við (Gunnar Karlsson), vanrækt að nefna (Helga Kress og Hjörleifur Guttormsson), eða leitt saklausa á villigötur (Sölvi Sveinsson). Þessi aðferð er makalaus tilraun til að afvegaleiða grandalausa lesendur.

  Að þessu sögðu hljóta að sækja að manni efasemdir um fræðilega dómgreind og heiðarleika EGP. Skjólið sem hann býr sér í nafni ímyndaðrar heimildarýni er smíðað úr grunnhygginni þjónkun við ofurþrönga fræðilega sýn. Þaðan ræðst hann á fræðimann sem hefur valið sér sama viðfangsefni og hann sjálfur en með allt öðrum og fjölbreyttari aðferðum. Það er aumt að reyna að gera lítið úr afrakstrinum af þrotlausri vinnu í nærri 6 ár með því að tína með þessum hætti fram rangfærslur og ómerkileg fræðaspörð sem litlu máli skipta. Í eftirmála læt ég í ljós þá von að bók mín marki nýtt upphaf í rannsóknum á Jóni lærða og verkum hans (bls. 662). Ég á þá ósk heitasta að ungir og hugmyndaríkir fræðimenn leggi þar hönd á plóg, til dæmis við handrit Jóns og skrifaraumhverfi þeirra, myndlist hans og einstök verk. Það verða þeir þó að fá að gera óáreittir af þeim sem þykjast hafa íhlutunarrétt eða yfirráð yfir Jóni lærða.

  Vilji lesendur bera saman vinnubrögð mín og Einars G. Péturssonar skal bent á höfuðrit hans, Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I, Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar 1998. Ég mun ekki munnhöggvast frekar við hann.

  – Viðar Hreinsson

 • ← Nýrri frétt Eldri frétt →